Heim > Um HHÍ > Skipting tekna

Skipting tekna

Tekjurnar dreifast víða

Tekjur Happdrættis Háskóla Íslands dreifast víða. Þrátt fyrir að megin markmið happdrættisins sé efling Háskóla Íslands með byggingu húsnæðis yfir skólann og að útvega góðan tækjakost, þarf einnig að nota hluta teknanna til annarra mála.

Stærstur hluti teknanna fer aftur til viðskiptavina happdrættisins í formi vinninga. Vinningshlutfall einstakra happdrættisforma er mjög mismunandi, allt frá rúmlega 50% upp í rúm 90%.

  • Leyfisgjald rennur til ríkisins. Það getur numið allt að 150.000.000 á ári.
  • Tekjurnar fara svo að sjálfsögðu einnig til almenns rekstrar HHÍ.
  • Þannig skiptast tekjurnar í vinninga,  framlög til Háskóla Íslands, leyfisgjald og rekstur.

Vinningar

Allir vinningar hjá Happdrætti Háskólans eru skattfrjálsir, hvort sem um lítinn eða stóran vinning er að ræða, vinning á skafmiða, í flokkahappdrætti eða í skjávélahappdrætti.

Vinningshlutfallið er mjög mismunandi, allt frá rúmlega 50% í sumum skafmiðaleikjunum upp í ríflega 90% í skjávélahappdrættinu. Vinningshlutfallið í flokkahappdrættinu er 70%. Þetta þýðir að af miðaverðinu, sem er 1.500 kr., renna strax 1.050 kr. út aftur til vinningshafa í formi vinninga.

Vinningar og útborgun þeirra er trúnaðarmál. Starfsfólk HHÍ og umboðsmenn þess eru bundnir trúnaði um vinninga sem og aðrar upplýsingar sem þeir verða áskynja í starfi sínu. Þannig er engum nema vinningshafa tilkynnt um vinninga í flokkahappdrætti.

Samkvæmt lögum fyrnast vinningar ef þeirra er ekki vitjað innan eins árs frá því þeir eru dregnir út. Eftir þann tíma ber happdrættinu ekki að greiða vinninginn. HHÍ er hins vegar hreykið af því að borga ávallt út vinninga þegar þeirra er vitjað, jafnvel þó eitthvað sé liðið frá því viðkomandi vinningur hefur fyrnst.

Háskóli Íslands

Allur hagnaður HHÍ rennur til Háskóla Íslands. Samkvæmt lögum er hagnaðinum varið til uppbyggingar húsnæðis fyrir Háskóla Íslands og til þess að búa skólann sem bestum tækjabúnaði fyrir nemendur og kennara.

Háskóli Íslands er elsti, stærsti og fjölbreyttasti háskólinn á Íslandi, stofnaður 1911. Þar er boðið upp á fjölþætt grunnnám fyrir stúdenta að loknu stúdentsprófi. Einnig er boðið upp á framhaldsnám til meistara- og doktorsprófs. Jafnframt er Háskóli Íslands öflugur rannsóknaháskóli á alþjóðlega vísu, en við háskólann eru starfræktar um 40 rannsóknastofnanir.
 
Háskóli Íslands er lifandi stofnun þar sem lögð er stund á flestar vísinda- og fræðigreinar í sterkum tengslum við atvinnu- og þjóðlíf á Íslandi. Við háskólann er hópur vel menntaðra og þjálfaðra kennara og vísindamanna. Þar hefur einnig skapast löng rannsóknahefð með miklu samstarfi við erlenda háskóla. Stúdentum sem stunda nám við Háskóla Íslands gefst kostur á að sækja hluta af námi sínu til viðurkenndra erlendra háskóla.

Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér háskólann frekar er bent á að skoða vef Háskóla Íslands.

Einkaleyfisgjald

Gjald til ríkisins fyrir rekstur peningahappdrættis. Með lögum nr. 75/2006 sem samþykkt voru á Alþingi þann 3. júní 2006 var ákveðið að Happdrætti Háskóla Íslands skyldi greiða s.k. leyfisgjald til ríkissjóðs. Slíkt gjald hafði verið við lýði allt frá stofnun happdrættisins árið 1934.

  • Leyfisgjaldið er 20% af nettóársarði happdrættisins, en þó ekki hærri fjárhæð en kr. 150.000.000.
  • Samsvarandi gjald er ekki lagt á önnur happdrætti í landinu.

Næstu útdrættir

Skoða aðra daga
11 Maí 2018
10 apr 2018